Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva

Er að horfa á afskaplega asnalegan þátt frá þessari virtu keppni.  Þarna eru samankonir Eurovisionspekingar norðurlandanna.  Eiríkur"okkar" Hauksson, töffari og eðalrokkari er þarna fyrir okkar hönd.  Þetta er frekar skrítinn þáttur.  Eftir því sem mér skilst þá er þetta fólk þarna til að krifja lögin til mergjar.  Lítur út eins og fótboltaspekulnatar sem eru að velta fyrir sér, fyrir leik, hvað gerist ef annað liðið skorar á undan hinu liðinu.  Eiríkur og co eiga að gefa löndunum stig eftir því hvað þeim finnst.  Fjallað var um íslenska lagið í þættinum og auðvitað fékk það flestu stigin þar sem engin af þátttakendunum vildi vera að "drulla yfir" Eirík okkar.  Spurning hvort hann hefði ekki átt að taka sér hlé þetta árið í þessum þætti vegna þátttöku sinnar í keppninni.  En að keppninni sjálfri.  Það er greinilega orðinn mikill glamúr í kringum þessa keppni og undanfarin ár hafa flott atriði unnið þetta.  Ég held að þátttaka Páls Óskars, árið 1997 að mig minnir, hafi breitt þessari keppni í það sem hún er í dag, þó að atriðið hans hafi ekki hlotið náð fyrir augum evrópubúa þá.  En það skemmtilegasta við þessa keppni hér á landi eru væntingarnar sem gerðar eru til þess að Ísland sigri.  Undanfarin ár höfum við orðið að taka þátt í forkeppni þessarar keppni og höfum ekki haft erindi sem erfiði, þrátt fyrir miklar væntingar.  T.d. þegar Selma keppti, fyrir tveimur árum, þá voru uppi þvílíkar væntingar, það var í rauninni formsatriði að taka þátt í þessari forkeppni.  Selma átti nefnilega að sigra þessa keppni eftir svakaleg vonbrigði 1999.  En, því  miður, komst hún ekki upp úr forkeppninni.  Svipaðar væntingar voru gerðar til Silvíu Nótt í fyrra en allt kom fyrir ekki, hún komst heldur ekki í aðalkeppnina.  Það verður því spennandi að heyra væntingarnar fyrir forkeppnina 10. maí n.k.  Og þá vonbrigðin sem verða ef Eiríkur kemst ekki áfram, sem ég vona svo sannalega að hann geri.

Gengur íslenska þjóðin til kostninga 12. maí n.k. með brostið hjarta útaf Eurovision?

Eldjárn kveður!


Landbúnaðar og utanríkismál

Var áðan á borgarafundi, sem RÚV stóð fyrir.  Þar var til umræðu þessi tvö málefni.  Sjónvarpið stillti þessu "mjög faglega" upp áðan, eða þannig.  Lét stjórnarflokkana sitja öðru meginn í settinu og stjórnarandstöðuna hinu meginn.  Hvað er að því? kann einhver að spyrja.  Jú, það sem mér þykir að því er það að þetta var eins og fulltrúar stjórnarflokkana væru að sitja fyrir svörum hjá stjórnarandstöðunni.  Þetta leit ekki vel út fannst mér.

En nóg um það.  Svo eru það málefnin sem til umræðu voru. Þ.e. Landbúnaðar og utanríkismál.  Mér fannst samfylkingin svolítið mála sig út í horn í sínum málflutningi varðandi landbúnaðarmálin.  Þeir vilja afnema alla verndartolla, að mér skilst, til að hægt sé að skapa samkeppni við íslenskan landbúnað.  Gott og vel, ég get alveg stutt það að það sé samkeppni við íslenskan landbúnað.  Samfylkingin sagði líka að það ætti að leggja niður beingreiðslur til bænda, sem er nánast eins og að segja upp kjarasamningum við launafólk.  Beingreiðslur eru ekkert annað en kjarasamningur við sauðfjárbændur og kúabændur.  Það sem mér finnst vanta í þetta hjá samfylkingunni er það að ef það á að hafa frjálsa samkeppni í landbúnaði þá verður líka að tryggja að bóndinn fái mannsæmandi laun fyrir vinnunna og hvað eru beingreiðslurnar annað en til að tryggja bændum laun fyrir sína vinnu.  Það verður að "styrkja" landbúnaðinn, því ekki borga afurðastöðvarnar það hátt verð til bænda.  Bændur hafa ekki möguleika á að koma sinni vöru á markað milliliðalaust.  Afurðastöðvarnar þurfa alltaf að vinna vöruna fyrir bændurna til að koma henni á markað.

Þarna voru líka rædd utanríkismál.  Þar snérist málflutningurinn um ESB og málefni innflytjenda, sem mér finnst reyndar ekki eiga skilt við utanríkismál.  Stjórnarflokkarnir og Vinstri grænir eru hvað afdráttarlausir gegn inngöngu í ESB.  Allir vita hver er afstaða samfylkingarinnar í þessu máli.  Hún vill "selja frumburðarrétt þjóðarinnar fyrir baunadisk" þ.e. sem sagt að þeir í Brussel geti t.d. ráðskast með landið og fiskveiðiheimildirnar.  Samfylkingin talar um að það megi semja um þetta mál við ESB.  Vissulega má reyna það en ég held að það takist ekki, því miður bara.  Íslandshreyfingarmaðurinn vildi ganga  í ESB, sem ég held nú að hafi verið hans persónulega skoðun.  Frjálslyndir vildu ekki ganga í ESB.

Síðan eru það málefni innflytjenda.  Þetta er svolítið skrítið mál og að heill stjórnmálaflokkur skuli " taka sig af lífi" hálfpartinn með því að setja þetta mál á oddinn í aðdraganda kostninga, eins og Frjálslyndi flokurinn gerir.  Það getur nefnilega hæglega farið fyrir honum eins og borgaraflokknum í kostningunum 1991, þegar hann þurrkaðist út.  Ég held að það væri nær að taka vel á móti innflytjendum og hjálpa þeim að aðlagast íslensku samfélagi.  Einnig þarf að tryggja það að ekki sé brotið á réttindum þeirra , bæði velferðarlega og atvinnulega.  Að þessu ætti frjálslyndi flokkurinn að einbeita sér í þessu máli sem og verkalýðshreyfingin.  Því ef farið er illa með eina stétt þjóðfélagsins þá getur það auðveldlega bitnað á öðrum.  Held að enginn innflytjandi, sem er kominn með ríkisborgararétt og/eða kostningarétt komi til með að kjósa frjálslyndaflokkinn þegar þeir eru með svona málflutning.  Held að Frjálslyndir geri sér ekki grein fyrir því að það er stór hópur innflytjenda sem má kjósa hér og kýs hér í fyrsta skipti núna.

Svo að lokum.  Hvað er Íslandshreyfingin að gera í þessu?  Eru ekki tilbúnir með neitt, hvorki lista né málefni, mánuði fyrir kostningar.  Er því miður bara eins máls flokkur.  Það kæmi mér ekki á óvart að ekkert yrði af framboði hjá þeim, allavega ekki á landsvísu.

Eldjárn kveður!


Er verið að nýta landið eða er verið að nota landið?

Þessari spurningu velti ágætur vinur minn upp við mig um daginn.  Bað mig um að reyna að skrifa smá pistil um þetta mál.  Ég setti hausinn í bleyti og fór að velta þessu fyrir mér.  Að mínu mati er verið að gera hvort tveggja.  Það er verið að nýta orkulindir landsins þar sem búið er að virkja þær til nota fyrir landsmenn, þá til almennra nota og til iðnaðar og atvinnu.  En síðan held ég aftur á móti að það sé verið að nota landið þegar orkulindir þess eru virkjaðar til að selja erlendum iðnrisum orkuna á spottprís.  Ég er hallur undir stóriðjuuppbyggingu á landinu, þar sem hennar er þörf.  En aftur á móti finnst mér að það eigi að selja raforkuna á sama verði til allrar iðnaðarstarfsemi, þ.e. að ekki einn aðili geti keypt raforku á kostnaðarverði á meðan annar aðili þarf að kaupa hana dýru verði.  Það verður að nýta hlutina rétt og ofnotkun getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, t.d. uppurð á malarnámum o.þ.h.

Ég er fylgjandi skynsamlegri nýtingu á landinu, hvort sem það er nýting á orkulindum eða öðrum jarðgæðum landsins.  En að nota landið er eins og að láta fara illa með sig sjálfan.  Það væri gaman að fá athugasemdir frá ykkur, lesendur góðir, hver ykkar afstaða er við þessari spurningu, ef þið hafið skoðun á því.

Eldjárn kveður!


Stóriðja eða ekki stóriðja?

Sá í þættinum Ísland í dag í gær á Stöð 2 viðtal við Halldór Halldórsson, bæjarstjóra á Ísafirði og formann samtaka sveitarfélaga.  Þar var verið að spyrja hann álits á íbúakostningu, eins og var í Hafnarfirði um liðna helgi.  Hann sagði að svona lagað yrði þróunin varðandi svona stór mál hjá svietarfélögunum.  Síðan véku spyrlarnir að öðru og það var grein sem Þessi ágæti Halldór hafði skrifað um það þyrfti að vera stóriðja í hverjum landshluta til að atvinnuleysi yrði ekki mikið, ef ég man þetta rétt.  Halldór sagði að umhverfisverndarsinnar hefðu sagt það, fyrir 4 árum síðan, að það væri hægt að skapa 700 ný heilsársstörf á austurlandi ef hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun.  Hann sagðist hafa biðlað til þeirra að koma með þessi störf vestur á firði.  Mér skildist að 50 manns hefðu sett sig í samband við hann með ýmsar hugmyndir, sem reyndar engar hefðu verið framkvæmdar.  Voru þessi störf flest tengd ferðaþjónustu og öðru slíku.  Hvernig á líka að vera hægt að skapa 700 ný heilsársstörf í kringum ferðaþjónustu vestur á fjörðum þegar besti sumarfrístiminn þar er frá því í endaðan maí og fram í miðjan september?  Það geta varla verið það margir ferðamenn þar yfir vetrartímann að 700 manns geti haft lifibrauð af því.  Sama á við um Húsavík, að mínum dómi.  Þaðan er búið að fara burtu með t.d. Mjólkursamlagið, sem eflaust hefur verið stór vinnustaður.  Kísiliðjan í Mývatnssveit lagði upp laupana, þar misstu nokkrir vinnunna, að mér skilst.  Getur ekki stóriðja, á borð við álver, hjálpað byggðinni þarna? Styrkt hana og eflt? Já, ég held að stóriðja geti gert mikið fyrir þetta svæði, s.br. auturland.  Fólk fylltist bjartsýni þar þegar byrjað var á framkvæmdum þar.  Byggðin hefur klárlega styrkst þar.  Það sama hlýtur að gerast á og í kringum Húsavík.  VG hefur m.a. hamrað á því að það eigi að gera eitthvað annað, fyrir þessa staði, heldur en að byggja þar stóriðju.  Þeir hafa nefnt ferðaþjónustutengda starfsemi, sem getur ekki gengið upp nema í fáa mánuði á ári.  Svo komu þeir með það að "sprotafyrirtæki" væru í umvörpum tilbúin að koma og setja sig niður á þessum litlu stöðum.  Hvað gera svona fyrirtæki fyrir íbúa svæðisins, ef þetta eru t.d. hátæknifyrirtæki.    Nákvæmlega ekki neitt því að nær flest allir íbúar þessara svæða hafa því miður ekki háskólamenntun.  Það væri líka gaman að fá að vita það hjá VG hvaða fyrirtæki þetta eru.  Mér finnst þetta fáránleg byggðastefna hjá VG.  Það er bara eitthvað annað en stóriðja sem kemst að hjá þeim.  Ég held að þeir skilji ekki að það eina sem getur bjargað byggðum landsins er einhverskonar stóriðnaður, enda að stærstum hluta 101 fólk sem ekki hefur komið lengra en upp í Mosfellsbæ.  Þetta er fólk sem vill að allt sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu og lansbyggðin er ekki til í þeirra huga.  Ég er stóriðjusinni og landsbyggðarmaður sem stið uppbyggingu á stóriðju á landsbyggðinni.  En jafnframt vil ég fara hægt í sakirnar og vanda alla vinnu í sambandi við þetta þ.e. virkjunarsvæði o.þ.h.

Eldjárn kveður!


Hættulegir bílar í umferð!

Sá í Kastljósinu áðan að það eru bílar í umferðinni, hér á landi, sem standast ekki skoðun hjá skoðunarstöðvunum.  Þetta sló mig rosalega, að sjá þetta.  Hvað er eiginlega í gangi? hugsaði ég.  Hvernig má það vera að bílar sem ekki standast skoðun séu samt í umferð.  Að menn geti farið á eina skoðunarstöð og þar fá þeir ekki skoðun  á bílinn og fara þá bara á næstu og fá þar fulla skoðun.  Það er skandall! Held að Frumherji bifreiðaskoðun þurfi að skoða þessi mál ofan í kjölinn.  Held líka áð, í kjölfarið, á þessu þurfi að fara að skoða það hvort herða eigi reglur um það hverjir vinna við breitingar á bílum.  Það gengur allavega ekki að pétur og páll úti í bæ geti keypt sér einhvern jeppaskrjóð, sem jafnvel hefur lent í tjóni, og breitt honum án þess að hafa til þess kunnáttu og/ eða þekkingu.  Sorry! Þetta kostar kanski skerðingu á lýðræði og sjálfstæðni.  Mér finnst allavega að menn þurfi að vera bifvélavirkjar til að mega breyta bílum.  Það á þá í kjölfarið að herða reglur um það að verkstæðin, sem taka svona að sér þurfi að sýna fram á einhverja gæðastjórun á verkum sínum.  Það þarf svo sannalega að taka á þessum málum því að það eru mannnslíf í húfi.  Fúsk og aðgæsluleysi, í þessum málum á ekki að líðast, fremur en annarsstaðar í hinu daglega lífi

Eldjárn kveður!


X-factor

Sá X-factor í fyrsta sinn í heild sinni í gær í endursýningu, ekki seinna vænna þar sem mér skilst að þetta hafi verið næst síðasti þátturinn.  Bara ágætisskemmtun þessi þáttur.  En hvað í ósköpunum er verið að gera við dómara í svona keppni, þar sem "þjóðin" fær að ráða hver vinnur.  Þetta er eitt asnalegasta fyrirkomulag á atkvæðagreiðslu sem hægt er að nota, eða það finnst mér allavega.  Þarna er klárlega verið að gefa, þeim sem á flestu vininna möguleika á að komast áfram þó kanski að viðkomandi söngvari hafi ekki verið góður.  Síðan er það verðið sem þarf að borga fyrir að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu, 99 krónur fyrir sms sem inniheldur 2 stafi.  Sennlega dýrasta sms sem hægt er að senda.  Í svona keppni væri eðlilegra að dómaranir hafi úrslitaáhrif hver fer heim og hverjir halda áfram, því þetta þarf að vera faglegt en ekki spurning um hverjir eigi flestu vininna.  Svo eru það dómaranir í þessari ágætu keppni.  Einar Bárðar er mjög faglegur í sinni umfjöllun um keppendur og það er Páll Óskar líka.  En hvað er Ellý að gera þarna? Ég veit það ekki.  Hún segir ekkert frá eign brjósti og gerir bara eins og Einar eða Páll Óskar.  Það vantar Bubba Morthens í dómarasætið í þessari keppni.  Hann var hreinskilinn og var tilbúinn að drulla yfir keppendur ef þeir voru ekki góðir.  Bubbi gerði Idolið skemmtilegt með þessum hætti.

Nóg í bili!

Eldjárn kveður!


Er fátækt á Íslandi?

Þessa spurningu heyrði ég síðast í dag, í dægurmálaútvarpinu á Rás 2.  Þar var talað við félagsfræðinga sem skoðað höfðu þessi mál mikið, að mér skildist.  Það er því miður staðreynd að það er fátækt til á Íslandi, um það deilir enginn.  En einhver hluti af vandanum er áunninn þ.e. fólk hefur komið sér í þessa stöðu sjálft með því að reyna að lifa um efni fram.  Hef heyrt dæmi um það að fólk hafi farið í raftækjaverslun og ætlað að kaupa ryksugupoka en labbað út með 600 þús. króna sjónvarp og heimabíó, sem það hefur svo ekkert ráð á að borga.  Lætur þetta bara á yfirdráttinn eða kretidkortið.  Held því miður að þarna sé stærsti fátæktarvandinn, að lífsgæðakapphlaupið sé að hlaupa með fólk í gönur.  Það er mikið rætt um að ríkisvaldið eigi að hjálpa þeim sem eru fátækir og það er bara af hinu góða að gera það.  En byrja verður á því að skilja þá frá sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda og hjálpa þeim.  Þá á ég við þá sem kanski eru fátækir af því að þeir hafa t.d. lent í slysi eða veikindum eða lent í að missa vinnunna.  Ég get hins ekki stutt það að þeir sem hafa komið sér í þau spor sjálfir, að vera fátækir, vegna þess að það er verið að keppa um það eiga flottari hluti en Palli í næsta húsi eða Jón vinur.  Þessu fólki er ekki viðbjargandi.  Fátækt kemur verst niður á börnunum, þeirra sem eru fátækir og það er það versta, þá með tilliti til eineltis og þ.h.  Jafnframt finnst mér að fólk, sem lifir svo um efni farm að börnin þurfa að líða fyrir það, eigi að skammast sín.  Sumir hugsa því miður bara um sjálfa sig  en taka ekki þarfir barna sinna framfyrir.

 Nóg í bili!

Eldjárn kveður! 


Spaugstofan

Alveg eru þetta snillingar í Spaugstofunni.  Mér fannst það svakalega fyndið hjá þeim að gera grín að þjóðsöngnum  sl. laugardag.  Síðan kemur það í ljós að það varðar við landslög að gera grín að þjóðsöngnum.  Þetta finnst mér fáránlegt, að eitt lag skuli svo heilagt að það megi ekki gera grín að því.  Hvernig er það? Má gera grín að laginu Hæ hó og jibbí jei það er kominn 17. júní? Ég veit það ekki.  Svo er það forsætisráðherra sem á að ákveða hvort Spaugstofan verður kærðir eða ekki.  Ég ætla rétt að vona að forsætisráðherra hafi meira og þarfara að gera en að vera að skipta sér af þessu máli, þó hann eigi að gera það.  Þetta er nefnilega tittlingaskítur, þetta mál.  Fólk á ekki að vera svona viðkvæmt að ekki megi gera grín að Þjóðsöng og/ eða þjóðfána, og hvað þá forseta Íslands, sem spaugstofumenn hafa æði oft tekið fyrir í sínum þáttum.  Ekki hefur forsetinn neitt við það að athuga og hvað þá almenningur í landinu.  Lífið heldur áfram þótt Spaustofan geri grín að þjóðsöngnum.  Þetta meiddi, að mínum dómi, engann.  Matti Jöcc hefði örugglega verið alveg sama þótt Spaugstofan hafi gert nýjan texta við hans ágæta lofsöng.

Eldjárn kveður!


Er fólk fífl?

Kveikti áðan á sjónvarpinu mínu, var að kíkja á textavarpið o.þ.h. Setti svo á Skjá einn og þar var á dagskrá þáttur sem heitir Vörutorg.  Þar skildist mér að hægt væri að kaupa ýmsan varning gegn "vægu" verði.  Meðal þess sem hægt var að fjárfesta í voru "ansi sniðugir" inniskór, sem áttu að muna eftir mér.  Vá hvað tækninni fleygir fram.  Er enn að spá í hvernig þessir sniðugu inniskór muna eftir manni.  Segja þeir! "Nei, þið hér! Við munum eftir ykkur".  Eða er það þannig að þeir muna eftir táfýlunni af manni.  Ég veit ekki.  Síðan var hægt að kaupa líkamsræktartæki þarna.  Þau voru ansi "sniðug".  Þetta eru bestu tæki sem fundin hafa verið upp í heiminum að mati einhvers líkamsræktarfrömuðar.  Greinilega náungi sem var búinn að æfa í mörg ár og ætti þá að tala af reynslu.  Held að maður eins og ég kæmist ekki í toppform á fáum dögum, eins og þessi maður hélt fram.  Ef einhver "feitabolla" kaupir svona tæki og kemst í toppform á aðeins örfáum dögum, þá fæ ég mér líka svona tæki.  En það er yfirleitt þannig í svona sjónvarpsmörkuðum að allur varningurinn, sem er til sölu, að þetta er það besta sem fundið hefur verið upp í heiminum.  Sem er auglýsingaskrum og lágkúra! Held að, þeir sem stjórna þessum þætti, séu að prófa hvort fólk sé fífl.  Dettur eihverjum í hug að kaupa eitthvað þarna?  Kanski að fólk kaupi brauðkassa, sem lofttæmir sig?  Veit ekki!  En það er alveg ljóst að ég fjárfesti ekki í brauðkassa eða inniskóm sem muna eftir mér.  Ég á inniskó, sem ég held að muni eftir mér, allavega er ég sá eini sem nota þá.  Og svo er frystir í ísskápnum hjá mér, þar geymi ég brauðið mitt.  Þannig að ég kemst ágætlega af í lífinu.  Svona sjónvarpsmarkaðir eru eitt það asnalegasta sem fundið hefur verið upp, en eru ágætir fyrir þá sem vilja versla þarna.

Eldjárn kveður!   


Suðurlandsvegur

Hef oft hugsað út í það á undanförnum mánuðum hvort tvöföldun suðurlandsvegar, í báðar áttir ætti rétt á sér.  Niðurstaðan sem ég hef fengið í þessum hugsunum mínum, um þetta mál, er sú að ef á að fara í að bæta veginn á annað borð þá á ekki að fara í þennan tveir + einn veg.  Þó svo að umferð yfir Hellisheiðina sé oft ekki það mikil núna að það réttlæti það að fara í tvo + tvo veg.  Í þessu sambandi er ég þá að tala um umferðina sem er á heiðinni á virkum dögum, hún er oft á tíðum ekki það mikil að það réttlæti það að fara í svo dýra framkvæmd sem tvöföldun er.  Hitt er svo aftur á móti annað mál að ef það á að fara í vegabætur á suðurlandsveginum þá er eina vitið að fara út í tvöföldun.  Lesandi góður! Þetta lítur kanski út fyrir að ég sé að vera búinn að tala í 180°.  En það sem ég á við er það ef á að láta fjármagn í þetta verkefni, þá á að tvöfalda veginn í báðar áttir. Það er eina vitræna leiðin að því leyti að þá er verið að fara út í framkvæmd sem dugar í segjum 50 ár, á meðan tveir + einn vegur dugar í kanski 15 ár.  En svo er það aftur á móti annað mál í sambandi við þetta,er að mínu mati á ekki að fara með þjóðveg 1 norður fyrir Selfossbæ heldur suður fyrir bæinn.  Jú, rökin fyrir því eru þau að það á ekki a vera búa til slysagildru á veginum með því að fara nyrðri leiðina.  Slysagildra! Jú, það geta verið svakalegir sviftivindar undir Ingólfsfjalli í norðanáttum.  Þarna geta auðveldlega skapast aðstæður, ekki ólíkar þeim, sem oft skapast á Kjalarnesinu eða undir Hafnarfjalli, í norðanáttum.  Ef við höldum okkur við Ingólfsfjall, þá geta þessar vindáttir auðveldlega varað alveg frá skarðinu milli Kögunarhóls og fjallsins og langt yfir fyrirhugaða brú norðan við bæinn.  En ef farið yrði, með veginn, suður fyrir bæinn þá myndi vindurinn vera búinn að "brotna" svo mikið, landinu sem hann er búinn að fara yfir, að þessara sviftivinda gætir ekki lengur, nema í svo mjög litlu mæli.  Ég sé þá fyrir mér að vegurinn myndi liggja rétt norðan við Ingólfshvol í Ölfusi, Ingólfshvoll er reiðhöllin stóra sem sést frá núverandi þjóðvegi, og svo kæmi brú á Ölfusá svona ca. á móts við Sandvíkurbæina í Árborg.  Nú fara eflaust margir að velta því fyrir sér að þetta sé langtum lengri leið, að fara, en sú nyrðri.  En eftir því sem mér er sagt þá er þessi leið aðeins 1700 metrum lengri en nyrðri leiðin.  Það væri auðveldlega hægt að taka þessa 1700 metra, einversstaðar annars staðar af hringveginum.  Ég held að þetta sé mál sem vert er, fyrir hvern þann sem ferðast um suðurlandsveginn, að velta þessu fyrir sér og skoða málið frá öllum hliðum.

 Eldjárn kveður!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Höfundur

Kristján Eldjárn Þorgeirsson
Kristján Eldjárn Þorgeirsson
Höfundur er góður drengur og með ákveðnar skoðanir á mörgum málum. Honum er fátt óviðkomandi. Einnig er hann húmoristi og tekur þar af lífið mátulega hátíðlega
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband